143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér var aftur kominn stjórnarandstæðingurinn hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, vegna þess að þetta var afskaplega neikvæð ræða. Þess vegna langar mig einfaldlega að vita hvort hv. þingmaður, sem hér talaði í löngu máli um hvað þetta væru, svo ég vitni í ræðu hans, ömurlegar tillögur og hrákasmíði, svo fátt eitt sé nefnt. Er ekkert í þessu fjárlagafrumvarpi sem hv. þingmaður styður? Er ekkert í þeirri hugmyndafræði sem birtist þar sem þingmaðurinn getur tekið undir?

Ég spyr vegna þess að á liðnu kjörtímabili áttum við stundum orðastað, ég og hv. þingmaður, sem þá var ráðherra fjármála. Það er auðvitað ekki þannig að allt sé bara svart og hvítt, hlutirnir séu svartir og hvítir. Þótt okkur greini kannski á um leiðir hljótum við að geta sammælst um einhverja hluti, og ég spyr því þingmanninn: Eru einhver atriði í þessu fjárlagafrumvarpi sem hv. þingmaður telur vera góð og hann mun styðja?