143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar og það er gott að við erum búin að finna þarna eitthvað sem við erum sammála um og að þetta sé ekki allt jafn svart og ég að minnsta kosti upplifði við að hlusta á ræðu hv. þingmanns.

Þá komum við að seinni spurningu minni sem lýtur að því að hv. þingmaður sagði um auðlegðarskattinn, en hann boðaði breytingartillögu um að koma því fólki sem á miklar eignir í eigin húsnæði í skjól gagnvart þeim skatti. Ég spyr hvers vegna hv. þingmaður kom ekki með þær tillögur og hratt þeim í framkvæmd þegar hann réð hér öllu síðastliðin fjögur ár. (Gripið fram í: Réð nú ekki öllu.)