143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að staðfesta þetta með tengingu þróunaraðstoðarinnar við tekjur af sérstökum veiðigjöldum, þá ber okkur algjörlega saman um það mál.

Varðandi tekjumissinn þá held ég að ég hafi einmitt sagt að þetta væri komið vel yfir 20 milljarða strax á árinu 2015 og svo vex það, t.d. ef orkuskatturinn fellur niður upp á 1,5 milljarða eða svo, líklega 2016. Það er því ávísun á vaxandi tekjutap og veikari og veikari tekjugrunn næstu árin ef menn halda þessari óbreyttu siglingu, sem ég tel mjög óráðlega.

Hvað þarf mikinn hagvöxt til að vinna þetta upp? Það er augljóst að hann þyrfti að vera umtalsverður. Ég tel að það þyrfti viðbótarhagvöxt upp á 1 til 2% að minnsta kosti til að ná upp í slaka af þessari stærðargráðu. En sá hagvöxtur verður einhvern veginn að verða til og það sem ég hef miklar áhyggjur af er að þessar áherslur núna, þar sem menn hverfa frá hinni blönduðu leið og fara meira í niðurskurðarleiðina, leggja enga áherslu á tekjuöflun, muni setja okkur í neikvæðan spíral sem skrúfar niður umsvifin í samfélaginu. Það sé farið út af jafnvæginu, (Forseti hringir.) sem allir eru að keppa að í vestrænum hagkerfum að finna, milli blandaðra aðgerða tekjuöflunar og niðurskurðar.