143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var ekki að gera lítið úr þeim samningi sem gerður var um Farice og hvernig komið var að því að halda því fyrirtæki gangandi. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að þetta er jú ríkisstyrkur inn í fyrirtækið ásamt því sem Landsvirkjun greiðir og Arion banki. En af því að flestir í þessum sal eru sammála því að byggja upp háhraðanet á landsbyggðinni jafnt og gert er á höfuðborgarsvæðinu þá spurði ég einfaldlega um Jöfnunarsjóð alþjónustunnar, til þess að hægt væri að nýta þessar 195 milljónir þannig að þær færu ekki í fjarskiptasjóð og síðan til Farice. Hv. þingmaður svaraði því til að honum væri eiginlega alveg sama hvert þetta færi, svo framarlega sem þessar 195 milljónir færu í að sinna þessu verkefni um háhraðanet fyrir landsbyggðina. Þá erum við hv. þingmaður kannski sammála um að leita leiða hvað þetta varðar.