143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef vænta er tillagna um að þessir fjármunir sem verða í ríkissjóði upp á 195 milljónir verði merktir upp á nýtt og merktir því að ganga í einhvern alþjónustusjóð eða hvað það nú er, þá er það í fínu lagi, ef það er skilvirk leið til þess að koma þeim fjármunum í gagnið og að þeir vinni á næsta ári að því að bæta þessi fjarskiptasambönd.

Varðandi samninginn við Farice þá veit ég ekki til að það séu neinar takmarkanir á því að greiða megi mismun tekna og gjalda á þessu tímabili úr ríkissjóði gegnum samninginn og þá þarf auðvitað bara að gera það. Þess vegna átta ég mig ekki alveg á vandamálinu, af hverju þarf að taka sérstaklega þessar tekjur fjarskiptasjóðs út úr honum, (VigH: … samninginn.) ef fjarskiptasjóður fengi bara í fjárveitingu það sem verður að greiða árlega inn á samninginn við Farice. Ef til vill eru einhver lagatæknileg álitamál að þvælast þarna fyrir mönnum, (Forseti hringir.) kann að vera. En aðalatriðið er að peningarnir fari í það sem þeir eiga að fara í og það er að bæta fjarskiptasamböndin á landsbyggðinni.