143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:43]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í þessari annarri ræðu minni um fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár hef ég hugsað mér að dvelja einkum við tvö atriði sem talsvert hafa komið til umfjöllunar í tengslum við fjárlagafrumvarpið og mig langar til að fara aðeins ítarlegar í en ég hef getað gert til þessa.

Í fyrsta lagi er það hækkunin á skrásetningargjöldum í opinbera háskóla. Gert er ráð fyrir að skrásetningargjöldin hækki úr 60 þús. kr. í 75 þús. kr. Nú er það svo að skrásetningargjöldin hækkuðu fyrir um tveimur árum, hygg ég að það hafi verið, úr 45 þús. kr. í 60 þús. kr. Áður en til þeirrar hækkunar kom hafði gjaldið ekki hækkað um margra ára skeið þannig að þar var uppsafnaður vandi ef svo má segja sem tekið var á á sínum tíma og það var reyndar í ágætu samstarfi við námsmannahreyfingarnar. Ekki svo að skilja að námsmenn hafi almennt verið ánægðir í sjálfu sér með hækkun gjalda en þeir höfðu á því skilning, gjaldið hafði ekki hækkað lengi og sýndu því skilning að það yrði hækkað þá.

Nú er engu slíku til að dreifa. Það hefur ekkert verið farið yfir það með námsmannahreyfingunum eða þær fengnar í lið. Þvert á móti hafa þær mótmælt þessari hækkun og ekki síst þeirri staðreynd að hækkunin á gjaldinu fer ekki öll til háskólanna. Hluti af gjaldinu fer beint í ríkissjóð til annarra þarfa. Það er ekki síst sá hluti sem ég vil gera hér að umtalsefni. Ástæðan er sú að skrásetningargjöldin flokkast undir það sem kallað er þjónustugjald og um þjónustugjöld gilda ákveðnar reglur í samfélaginu.

Í fyrsta lagi má innheimta þjónustugjöld að því gefnu að fyrir þeim sé lagastoð og í öðru lagi mega þau ekki nema hærri upphæð en til að mæta þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að mæta. Þannig má ekki taka þjónustugjöld í aðra hluti, það er almenna reglan. Þess vegna hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort það sé í raun og veru heimilt að taka hluta af þjónustugjöldunum beint inn í ríkissjóð. Ég veit ekki hvort stjórnarmeirihlutinn hefur skoðað þetta sérstaklega en ég veit að það á að vera hægt að fara í saumana á þessu máli vegna þess að fyrir liggja ýmsar skýrslur og greinargerðir um þjónustugjöld annars vegar og skatta hins vegar, hvað felst í þjónustugjöldum og hvernig má fara með þau. Meistararitgerðir hafa verið skrifaðar í lögfræði við Háskóla Íslands þar að lútandi og umboðsmaður Alþingis hefur í allmörgum tilvikum fjallað um þjónustugjöld þar sem beint hefur verið til hans spurningum um hvort tiltekin þjónustugjöld séu heimil eða ekki. Til að mynda hefur hann fjallað um þjónustugjöld eða skrásetningargjöld við Háskóla Íslands. Þess vegna gæti verið áhugavert að fara aðeins yfir það og skoða: Stenst þessi meðferð á þjónustugjöldunum og skrásetningargjöldunum skoðun, stenst hún lög? Ég leyfi mér að hafa efasemdir um það. Í áliti umboðsmanns frá því á 10. áratugnum um skrásetningargjöld í háskólanum er komist að þeirri niðurstöðu, ef ég kann það rétt, að ekki sé heimilt að nota skrásetningargjöldin í annað. Gert var ráð fyrir því samkvæmt reglugerð að háskólinn ráðstafaði þessum skrásetningargjöldum, heimilt væri að nota þau til að greiða kostnað við innritun í háskólana. Það mætti leggja hluta af þeim til Félagsstofnunar stúdenta, lagaheimild er fyrir því, en á annan hátt mætti ekki ráðstafa þeim skrásetningargjöldum. Ég hvet eindregið til þess að menn fari aðeins í saumana á þessu og skoði hvort menn séu eitthvað á hálum ís varðandi skrásetningargjöldin. Ef það er þannig að þau fari ekki öll í það sem þau eiga að fara, kannski bara minna en helmingur eða þriðjungur þeirra af þessari hækkun — skoðum þessa hækkun upp á 15 þús. kr., ef þriðjungurinn er að fara til háskólanna en 2/3 í ríkissjóð, 10 þús., þá er það ekkert annað en nefskattur á námsmenn og þá á bara að kalla það því nafni. Það á ekki að kalla það öðru nafni en það raunverulega er. Og það eru auðvitað ekki breiðu bökin í samfélaginu að fara að leggja á sérstakan námsmannaskatt við háskólana sem þessu nemur.

Síðan er eftirtektarvert að í nefndaráliti frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, verðlagsbreytingar o.fl., er fjallað um skrásetningargjald við háskóla. Og þá segir allt í einu í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Telur meiri hlutinn að hækkun skólagjalda kunni að hvetja námsmenn til að nýta betur það nám sem opinberir háskólar bjóða upp á.“

Þá er allt í einu farið að tala um skólagjöld. Hér er á ferðinni lögskýringargagn þannig að það verður að líta svo á að meiri hlutinn telji að þessi skrásetningargjöld séu skólagjöld. Þá er rétt að rifja það upp að skólagjöld eru lánshæf hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hér virðist vera gert ráð fyrir því eða væntanlega, ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en að þessi skrásetningargjöld verði þá orðin lánshæf. Ég hef velt því fyrir mér og spurt um það hér án þess að fá nokkur svör: Hafa menn kannað það hvaða áhrif þessar formúleringar og þessi stefnubreyting hefur á Lánasjóð íslenskra námsmanna? Hefur formaður fjárlaganefndar kannað það? Mér finnst að það þurfi að liggja fyrir.

Svo er auðvitað mjög sérkennilegt að svona stórar ákvarðanir eins og t.d. þessar, og ég tala nú ekki um algera nýjung, þ.e. innlagnargjöldin á sjúkrahúsin séu bara tekin hér í breytingartillögum við einhvern bandorm án þess að hin pólitíska stefnumótun fái í raun og veru þá umræðu sem hún ætti að fá, og í raun ætti að koma hér með frumvarp þar að lútandi sem fengi þrjár umræður á Alþingi. Svona pólitísk stefnumótun sem fer þessa leið hefur ekki fengið þrjár umræður á Alþingi. Í stjórnarskránni er kveðið á um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja nema það hafi fengið þrjár umræður og maður hlýtur að velta fyrir sér hvort menn séu ekki hér líka á dálítið gráum ís. En þetta eru alla vega hlutir sem ég tel að verðskuldi alveg að menn velti fyrir sér.

Annað sem ég ætla síðan að nefna er þróunarsamvinnan og þróunarsamvinnuáætlunin af því að hún hefur verið mikið til umfjöllunar. Hér hafa verið alls konar fullyrðingar í gangi um að fyrrverandi ríkisstjórn hafi dregið úr þróunaraðstoðinni og hún hafi farið svo og svo hátt o.s.frv. Og það er eins og svo oft með tölur að hægt er að leika sér dálítið með þær og það skiptir máli í hvaða samhengi þær eru. Það er rétt, og ég ætla ekki að gera lítið úr því, að hlutfall þróunaraðstoðar, þróunarsamvinnu okkar, af vergum þjóðartekjum fór hæst á árinu 2009 í 0,33% af vergum þjóðartekjum. Þá verða menn að hafa í huga að ekki var ætlunin að fara með þetta hlutfall svona hátt.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir það sama ár, sama ár og þróunaraðstoðin fór upp í 0,33%, var gert ráð fyrir að hún yrði 0,26%. Af hverju reyndist hún þá verða 0,33%? Jú, það var vegna þess að þjóðartekjurnar árið 2009 féllu. Hafa menn gleymt því að í kjölfar efnahagshrunsins féllu þjóðartekjurnar á árinu 2009? En upphæðin til þróunarsamvinnunnar í fjárlögunum lá náttúrlega fyrir og samningar þar að lútandi, meira að segja í erlendum gjaldmiðli. Og eru menn kannski líka búnir að gleyma því að íslenska krónan féll verulega? Samanburðurinn við slíka tölu er ekki raunsær og hann er ekki sanngjarn einu sinni. Það er þá nær að horfa á þá tölu sem fór inn í fjárlagafrumvarpið. Fyrir árið 2008 var gert ráð fyrir að þróunarsamvinnan fengi 0,23% af vergum þjóðartekjum. Það reyndist hins vegar verða 0,27% af sömu ástæðu og ég var að rekja hér áðan. Fyrir árið 2009 átti þróunaraðstoðin að fara í 0,26% samkvæmt fjárlagafrumvarpi en varð 0,33% einmitt vegna þess að landsframleiðslan dróst saman og allir sem kunna einfaldan hlutfallareikning átta sig á því að þegar þjóðartekjurnar, sem er viðmiðið, falla og hin talan er fasti þá hækkar hlutfallið sem því nemur.

Á árinu 2010 var gert ráð fyrir, og það er rétt, að hlutfallið yrði lægra eða tæplega 0,20% en það varð 0,28%. Á árinu 2011 var þetta hlutfall 0,21%. Og hvað gerist á árinu 2011? Hér er líka mikilvægt atriði sem menn verða að hafa í huga og það er að Alþingi samþykkti á árinu 2011 í fyrsta skipti áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu fyrir árin 2011–2014. Þá fyrst setur Alþingi viðmið um það hvað þróunarsamvinnan á að vera hátt hlutfall af vergum þjóðartekjum.

Hvað stendur í þeirri þróunarsamvinnuáætlun sem Alþingi samþykkti á árinu 2011? Þar stendur að hlutfallið af vergum þjóðartekjum á árinu 2011 skuli vera 0,21%. Hvað reyndist það svo verða á árinu 2011? Jú, 0,21% þegar upp var staðið, nákvæmlega eins og áætlunin sagði fyrir um. Við hana var staðið. Á árinu 2012 átti samkvæmt þróunarsamvinnuáætluninni hlutfallið að vera hið sama, 0,21% af vergum þjóðartekjum. Þegar upp var staðið reyndist það hlutfall vera 0,21%, nákvæmlega eins og þróunarsamvinnuáætlunin sagði til um. Staðið var við þróunarsamvinnuáætlunina á því ári.

Á árinu 2013 sagði þróunarsamvinnuáætlunin frá 2011 að hlutfallið skyldi vera 0,25%, það átti að hækka. Fyrir árið 2013 stefnir nú í það að hlutfallið verði 0,25%, nákvæmlega eins og þróunarsamvinnuáætlunin gerði ráð fyrir. Þróunarsamvinnuáætlunin var síðan endurskoðuð á yfirstandandi ári og samþykkt uppfærsla á henni í vor, vorið 2013, og þar er þá komið inn að hlutfallið á árinu 2014 skuli vera 0,28%. Og það var það sem gert var ráð fyrir að menn héldu og virtu samþykkt Alþingis frá því í vor um að hlutfallið færi í 0,28%. En þá gerist það að ný ríkisstjórn kemur og hún lækkar það hlutfall. Þegar menn eru að tala um þróunarsamvinnuna sem hlutfall af vergum þjóðartekjum og söguna í því þá verðum við að hafa þessar staðreyndir í huga. Menn geta komið og sagt: Hlutfallið lækkaði, það er rétt, það lækkaði, þ.e. það hækkaði fyrst milli áranna 2008 og 2009. Af hverju? Vegna þess að landsframleiðslan féll en talan var föst í fjárlögum og meira að segja bundin í erlendum gjaldmiðli sem féll líka, þ.e. íslenska krónan. Þetta skilja þeir sem kunna að reikna. Þeir átta sig á þessu. Það var ekki ákvörðun Alþingis að fara með hlutfallið á þeim tíma upp í 0,33%. Fjárlögin fyrir það ár sögðu 0,26% en útkoman varð 0,33%. Þetta skiptir máli. Það er ekki hægt að koma og segja að fyrrverandi ríkisstjórn hafi tekið ákvörðun um að hækka eða lækka. Það var ekki þannig.

Síðan þróunarsamvinnuáætlunin var samþykkt, hin fyrsta, á árinu 2011 hefur hlutfallið í fjárlögum og ríkisreikningi verið eins og þróunarsamvinnuáætlun gerði ráð fyrir. Fyrrverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna stóð við þá áætlun. En það er núna sem vikið er frá henni. Og þá ber svo við að, ég held að það hafi verið formaður fjárlaganefndar sem sagði hér og var haft eftir í Morgunblaðinu, að það hafi verið fyrirvari við þróunarsamvinnuáætlunina ef hagvöxturinn yrði eitthvað öðruvísi en spáð var, þá gæti þessi upphæð lækkað. Þetta er ekki rétt, herra forseti.

Það er einn fyrirvari í þróunarsamvinnuáætluninni þar sem segir, með leyfi forseta:

„Verði hagvöxtur meiri en nú er spáð komi framlögin til endurskoðunar en jafnframt verði tryggt að framlög til þróunarmála verði ekki lægri að raungildi en árið 2013.“

Fyrirvarinn (VigH: Lestu minnihlutaálitið.) — ég er að tala um samþykkt Alþingis, virðulegur formaður fjárlaganefndar. Það er hún sem er samþykkt Alþingis. Ég á eftir að koma að minnihlutaálitinu af því að formaður fjárlaganefndar galar hér fram í, ég á eftir að koma að því, en það er samþykkt Alþingis sem stendur og það er í henni sem eini fyrirvarinn er, þ.e. að ef hagvöxturinn verði meiri en spár gera ráð fyrir þá skuli þetta koma til endurskoðunar og að framlög verði ekki lægri að raungildi en árið 2013. Þetta segir samþykktin.

Síðan var það þannig að við afgreiðslu áætlunarinnar nú í vor, ekki 2011 þegar hún var samþykkt fyrst, heldur 2013 við endurskoðun hennar, gerðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrirvara. Þeir stóðu að álitinu, þeir samþykktu áætlunina en þeir höfðu fyrirvara að því er laut að fjármögnun eða sem sagt hagvexti. Slíkur fyrirvari lýsir einfaldlega afstöðu þeirra sem þá voru í minni hluta í nefndinni en hann er ekki hluti af samþykkt Alþingis, því fer víðs fjarri. Það þarf þá nýja samþykkt. Og þá hefði ég talið að stjórnarmeirihlutinn hefði átt að koma með þingsályktunartillögu um breytingu á þeim hlutföllum þannig að á bak við þau, breytt hlutföll, lægi samþykkt Alþingis í þróunarsamvinnuáætlun vegna þess að Alþingi samþykkti lög á árinu 2008, fyrstu lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Þar kemur fram að Alþingi skuli ákvarða framlög til þróunarsamvinnu á grundvelli þingsályktunar þar að lútandi og fyrsta ályktunin þar að lútandi var samþykkt á árinu 2011. Frá því að hún var samþykkt, en hún gerir ráð fyrir stighækkandi framlögum Íslands til þróunarsamvinnu, þá hefur verið staðið við hana þangað til nú, þangað til núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tekur við völdum. Ég tel þetta, herra forseti, mjög bagalegt og eiginlega dálítið lítilmannlegt einfaldlega vegna þess að hvað sem öllu líður er Ísland ríkt land. Við erum rík þjóð og hér erum við að tala um að leggja okkar af mörkum í samræmi við eða að minnsta kosti að vinna okkur upp í þau viðmið sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett í þessu efni hægt og bítandi á næstu árum, fimm til tíu árum, og að veita þróunarsamvinnuaðstoð, neyðaraðstoð og mannúðarhjálp til þeirra sem búa við bágust kjör í heiminum, langbágustu kjörin í heiminum.

Núverandi ríkisstjórn forgangsraðar með öðrum hætti. Það var reyndar ágæt teikning sem birtist í Fréttablaðinu fyrir fáeinum dögum, þar sem hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, var í aðalhlutverki þar sem verið var að lýsa á mjög táknrænan hátt forgangsröðuninni þar sem þróunarsamvinnan er annars vegar, sem sagði meira en mörg orð. Mér finnst það mjög miður að menn skuli taka þá stefnu og þennan pól í hæðina þegar kemur að ég vil segja svona mikilvægum, þýðingarmiklum málaflokki eins og þróunarsamvinnu þar sem litlar fjárhæðir, tiltölulega litlar fjárhæðir, geta gert alveg ótrúlegustu hluti. Hver hefur ekki verið í þeim sporum að fá tilboðum að styrkja fátækt barn í þróunarlöndum til skólagöngu þar sem menn leggja kannski 5.000 kr. af mörkum og það kostar skólagöngu eins barns í jafnvel þrjá mánuði. Litlar fjárhæðir geta gert alveg ótrúlega mikið gagn og skipt sköpum fyrir afkomu og líf fjölda fólks í fátækustu ríkjum heims.

Þetta vildi ég, herra forseti, láta koma fram í þessari umferð vegna þess að mér svíður að farið skuli vera með þróunaraðstoðina eins og gert er í fjárlagafrumvarpinu.