143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir segir, hún er mörg flækjan í því gaddavírsvirki sem borið er fyrir okkur hér í frumvarpi til fjárlaga og tengdum frumvörpum. Ég get að sjálfsögðu ekki greitt úr því nákvæmlega sem þingmaðurinn vekur athygli á, misræmi í fjárlagafrumvarpinu annars vegar og í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar hins vegar. Það sem upp úr stendur er hins vegar það að verið er að gera ráð fyrir þessari hækkun á skráningargjöldunum, það á að fara úr 60 þús. kr. í 75 þús. kr. Og ef fjárlagafrumvarpið vísar bara til þess að um sé að ræða fjölgun nemenda en ekki hækkun gjalds þá kann það að vera vegna þess að ákvörðun um hækkun gjaldsins hafi komið eftir að fjárlagafrumvarpið var komið hér úr prentun og inn í þing. Ég veit ekki nákvæmlega hvort eitthvert misræmi var af því að frá fjárlagafrumvarpinu er gengið dálitlu áður en það er lagt fram á Alþingi, það er viðamikið verk sem þarf að ganga frá og prenta. En það kann að vera eitthvað þess háttar eða þá að menn hafi einfaldlega ekki greint frá því í fjárlagafrumvarpinu að þetta stæði jafnframt til og það kemur síðan í gegnum hinn svokallaða bandorm.

Það sem upp úr stendur er þó það að öll þessi hækkun skilar sér ekki til háskólanna. Það er jafnvel minni hluti hækkunarinnar sem mun skila sér þangað. Ég hef sett spurningarmerki við það hvort það standist að þannig sé farið með þjónustugjald af þessari gerð og vísa meðal annars til þess að umboðsmaður hafi fjallað um mál af þessum toga, meðal annars um skráningargjöld í háskólunum. Einhvern tíma hefði einhver þingmaður talið að þegar svona er farið með lög og reglur þá gæti réttarríkið verið í hættu. Ég veit ekki hvort það á við núna en ég hef ekki heyrt talað um það um nokkurra mánaða skeið hér í þingsalnum.