143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var á köflum svolítið sérstök. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður sagði að í náttúruvendarfrumvarpið hefðu farið þúsund ársverk. Voru þetta 300 einstaklingar í þrjú ár eða hvaða rosalega vinna lá að baki því frumvarpi? Ég sá þetta frumvarp og tók þátt í umræðunni (Gripið fram í.)og ég held að tíminn hafi ekki verið vel nýttur. Það kom lítið út úr allri vinnunni, svo ekki sé dýpra á árinni tekið.

Hv. þingmaður talaði um heilbrigðismálin og mikilvægi þess að bæta í þau. Ég er með tölurnar yfir það hvað hefur verið lagt í heilbrigðismálin á undanförnum árum og ég spyr, af því að hv. þingmaður var á síðasta þingi þegar vinstri stjórnin var: Talaði hann um þetta innan stjórnarflokkanna, um mikilvægi þess að bæta í heilbrigðisþjónustuna? Og ef hann gerði það varð hann ekki fyrir vonbrigðum með viðbrögðin sem hann fékk, af því að ekki skilaði áherslan hjá hv. þingmanni sér í fjárheimildum? Ég hélt um tíma að hann væri kominn í lið með stjórnarliðinu því að hann gagnrýndi svo harkalega síðustu ríkisstjórn. Ég til dæmis var mjög hógvær í minni ræðu í samanburði við hv. þingmann sem fór yfir það hvernig búið hefði verið að þessu og hvernig hefði verið forgangsraðað rangt. Það væri ágætt að fá að vita hvaða viðbrögð hann fékk.

Sömuleiðis, af því að hann nefndi einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni, er hann sammála VG um að hætta eigi með einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni, eins og ályktað hefur verið um á landsfundi VG?