143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:10]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég er sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni varðandi það að margt í þessu fjárlagafrumvarpi er flausturslega gert. Það er hlaupið til og skorið niður svolítið af „popúlískum kenndum“. Menn hjóla í þætti þar sem menn munu ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér, þ.e. þeir sem verða verst fyrir niðurskurðinum munu ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér og munu ekki gera það. Það er ég viss um að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er mér sammála um að er ekki stórmannlegt, það er það ekki.

Börnin í Malaví, sem við höfum verið að styðja við bakið á undanfarin ár, munu ekki koma hingað á þingpallana til að kvarta undan niðurskurði í þróunaraðstoð. Gamla fólkið sem þarf að hjálpa í göngugrindum eða hjólastólum inn á sjúkrahúsin mun ekki koma hér á þingpallana og kvarta yfir sjúklingagjöldunum, það mun ekki gera það. Vonandi verða einhverjir fulltrúar þeirra hér á þinginu til þess, ég vona það svo sannarlega. En það er algjörlega ljóst að niðurskurður og gjaldtaka með þessum hætti er ekki bara flaustursleg, hún er ómanneskjuleg.