143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt það sem greiðsluþátttökunefndin er að vinna að, að takmarka það sem fólk greiðir í heildina fyrir heilbrigðiskerfið. Það er verið að vinna að því en eins og staðan er núna gætir misræmis. Það var ekki ég sem kom með alhæfinguna um að veikasta fólkið væri innritað. Það var hv. þingmaður sem kom með þá alhæfingu og hún er þá alhæfing um að sá sem er með krossbandamein í hné sé veikari en krabbameinssjúklingur, því að hann er ekki lagður inn og hann vill heldur ekki verða lagður inn. Það eru lífsgæði að geta verið heima hjá sér eins lengi og hægt er. Ég held að mjög margir séu þakklátir fyrir þær tæknibreytingar sem hafa orðið, sem eru gífurlegar á síðustu fimm eða tíu árum, sem eru kviðsjáraðgerðirnar. Það er stórkostleg framþróun og stórkostleg bót fyrir sjúklinga en hefur í för með sér að þeir borga og borga út og suður. Þetta gerðist á vakt síðustu ríkisstjórnar en vonandi lagast það.