143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:16]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir, samþingmaður minn úr Norðausturkjördæmi, spyr nokkurra spurninga út í framlagt frumvarp. Ef ég byrja á síðustu spurningu þá spyr hv. þingmaður um boðuð ný fjárreiðulög, sem er ákaflega brýnt að koma með og leggja fram til þings, þau hafa verið lengi í smíðum. Þess vegna hef ég fagnað því sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt, að þau verði lögð fram í vetur og vonandi kláruð. Ég fagna því mjög. Svar mitt við því hvort ég telji að það breyti einhverju við fjárlagavinnuna sem slíka er nei, ég held ekki. Ég held að aðalbreytingin sem gerð var til batnaðar og gefi lengri tíma til fjárlagavinnu á Alþingi sé breytingin á þingsköpum sem við gerðum um samkomudag Alþingis og tekjuöflunarfrumvörpin koma þar fram með.

Virðulegi forseti. Þá kemur upp í hugann annað sem gerðist með þeirri þingskapalagabreytingu sem er að í fyrsta skipti á næsta ári, í apríl ef ég man rétt, þarf hæstv. fjármálaráðherra að koma til þings með þingsályktunartillögu um alla helstu útgjaldaliði í fjárlögum. Sú vinna verður líka til mikilla bóta, virðulegi forseti, og ég bíð mjög spenntur eftir því þegar afrakstur hennar kemur fyrst fram. Það sem þarf auðvitað að gera varðandi þessa vinnu er að leggja fjárlög fram fyrr. Þess vegna hefði 10. september verið betri en 1. október.

Virðulegi forseti. Varðandi sóknaráætlun og verkefnið Brothættar byggðir ætla ég að freista þess að koma því að í seinna andsvari mínu.