143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum þessi svör. Ég tek undir með honum og það var kannski akkúrat það sem ég var að fiska eftir, þ.e. að fjárreiðulögin gera það að verkum að leggja þarf fram ramma að útgjaldaáætlun í apríl. Það verður vonandi til þess að við sitjum ekki hér á Alþingi síðla í desember á næsta ári að fjalla um svo viðamiklar breytingar eins og hér eru.

Mig langar aðeins að bæta við þetta, af því að nú eru kjarasamningar í uppnámi og ljóst að það er þungt fram undan hvað það varðar. Telur þingmaðurinn að ríkisstjórnin hefði átt að falla frá verðlagsbreytingum, eða öllu heldur að fara að fyrirmynd sveitarfélaganna sem nú hafa gengið á undan að ég held með góðu fordæmi til þess að leggja sitt af mörkum inn (Forseti hringir.) í kjaraviðræðurnar?