143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:20]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aftur byrja ég á síðustu spurningu hv. þingmanns, um kjarasamninga og verðlagsbreytingar: Já, alveg tvímælalaust. Tvímælalaust hefði ríkisstjórnin átt að gera það. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra hér um þetta fyrir hálfum mánuði eða þremur vikum þegar þeir stjórnarherrar gagnrýndu sveitarfélögin fyrir að ætla að hækka verðskrár sínar. Þá spurði ég hvort ekki væri ástæða til þess að ríkisstjórnin hætti við sínar hækkanir. Það kemur líka fram í þeim breytingartillögum sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram við fjárlög, að falla frá öllum þessum vísitöluhækkunum. Þær fara langleiðina með að taka burt 5 milljarða afganginn sem verður vegna skattalækkana í millitekjuþrepinu.

Aðeins um sóknaráætlun og Brothættar byggðir vegna þess að ég komst ekki yfir að svara því áðan: Já, það er sorglegt ef þingmenn stjórnarflokkanna á landsbyggðinni ætla að láta það yfir sig ganga að það sé gengið þannig milli bols og höfuðs á brothættum byggðum, (Forseti hringir.) jöfnun búsetuskilyrða og sóknaráætlun landshluta. Það eru aum spor hjá nýjum þingmönnum, virðulegi forseti.