143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og góða innsýn í starf fjárlaganefndar og eins yfirferð velferðarnefndar yfir einstaka þætti í fjárlögunum. Ég vildi fá að inna þingmanninn eftir því hvort það hafi komið fram hjá fulltrúum Landspítalans — af því að ég heyrði ekki fyrsta hluta ræðu hennar — hvernig þeir mætu rekstrarframlögin til spítalans eins og þau standa núna eftir þær breytingar sem meiri hluti fjárlaganefndar gerði á föstudaginn var.

En aðallega vildi ég inna hv. þingmann eftir því hvernig hann sér þetta verklag í fjárlögunum. Nú veitti stjórnarandstaðan hæstv. fjármálaráðherra sérstakan byrjendafrest þar sem ákveðið var að falla frá lögákveðnum framlagningardegi fjárlagafrumvarpsins sem jafnan er mál nr. 1 hér á dagskrá þingsins. Þingið hefði jú átt að hefjast annan þriðjudag í september en var frestað til 1. október svo að hæstv. fjármálaráðherra næði að vinna sína heimavinnu. Síðan kemur þetta frumvarp inn og jafnharðan er því lýst yfir að það sé svo meingallað að fjárlaganefnd þurfi að vinna mikið í því að laga málið. Þær tillögur birtast okkur svo ekki fyrr en föstudaginn 13. desember og enn eiga eftir að koma viðamiklar breytingartillögur á milli umræðna. Hvaða úrbætur sér hv. þingmaður helst að hægt sé að gera á þessu fjárlagaferli þannig að vandaðri vinnubrögð séu við fjárlagagerðina? Það er algjör grundvöllur að því að framkvæmd ríkisfjármála sé með þeirri festu sem nauðsynleg er að vandað sé til fjárlagagerðarinnar.