143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og innlegg í umræðuna. Það er áhugavert að heyra hvað hún hefur að segja um þessi mál þar sem hún situr í nefndinni og þess vegna langar mig að spyrja hana nokkurra spurninga. Það er lögð töluverð áhersla á það í breytingartillögum meiri hlutans að skera niður í ráðuneytunum og þar er miðað við 5% flatan niðurskurð fyrir utan að bætt er allverulega í gagnvart utanríkisráðuneytinu og þeir fá dálítið hærri kröfu á sig.

Af því að ég starfaði í ráðuneytum á síðasta kjörtímabili veit ég að þau voru skorin mjög hressilega niður þá. Það var ekki skorið flatt heldur tóku flestir ráðherrarnir ákvörðun um að skera fyrst niður á skrifstofum ráðuneytanna áður en farið var í verkefnin utan þeirra. Til dæmis í iðnaðarráðuneytinu gamla held ég að við höfum farið í hátt í 30%, uppsafnað, í niðurskurði.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort eitthvað hafi verið rætt í nefndinni hvaða áhrif niðurskurðurinn muni hafa, í fyrsta lagi á mannafla. Mun þetta þýða uppsagnir á fólki og þá hversu miklar? Hefur það verið rætt að ef til þess kemur hvaða áhrif það hafi þá á einstök verkefni og hvernig þetta geti allt saman farið fram? Er þetta gerlegt vegna samninga sem starfsmenn í ráðuneytunum hafa og hvaða áætlanir eru uppi um í hvað skuli höggva? Í ofanálag er þetta er býsna stór biti miðað við það sem á undan er gengið og því hlýtur það að hafa verið kynnt fyrir nefndinni. Ég trúi ekki öðru en að meiri hluti nefndarinnar taki ákvörðun byggða á vitneskju um hvernig þetta er gerlegt.