143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég skil hv. þingmann rétt er það þannig að ráðuneytunum sjálfum er gert að greiða úr þessu. Það þykir mér, verð ég að segja, mjög undarlegt vegna þess að þegar farið er að höggva svona mikið í starfsemi ráðuneytanna eru spurningarnar um hvaða verkefni þurfa að víkja að mínu mati orðnar pólitískar.

Það er þá eitthvað sem við hér eigum að minnsta kosti að fá upplýsingar um fyrir fram áður en endanlegar ákvarðanir um það eru teknar. Af því að hv. þingmaður nefndi utanríkisráðuneytið er þetta náttúrlega töluvert mikið högg þar, ég held að það fái 7–8% í staðinn fyrir 5% plús það að fá þessar 47 milljónir sem því er ætlað að taka á sig vegna hins sorglega máls þar sem fjárdráttur varð innan eins sendiráðsins. Þetta er því töluvert högg fyrir það ráðuneyti og ég er ekkert viss um að ef menn þurfa til dæmis að fara í uppsagnir þar sé það gerlegt á einu ári. Það er eitthvað sem mér finnst að þingið og nefndin þurfi að skoða vel.

Annað sem mig langar að nefna er að það kemur líka fram í tillögum nefndarinnar að tekin hafi verið ákvörðun um að loka skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna og þar er fjármagnið helmingað af því að hún á að vinna eitthvað inn í árið en svo á að leggja hana niður. Ég veit að verkefnin sem eru unnin þar hverfa ekki. Fékk nefndin einhverjar upplýsingar um hvað yrði um þau verkefni? Ég ætla að taka sem dæmi Tækniþróunarsjóð, af því að okkur hefur orðið tíðrætt um hann, en þessi skrifstofa hefur séð um alla umsýslu fyrir sjóðinn. Þýðir þetta þá að taka verður fjármuni úr sjóðnum hér eftir til að bjóða þessa starfsemi út eða hvernig ætla menn að koma þeim verkefnum fyrir? (Forseti hringir.) Ég held að mjög margar tillagnanna séu gríðarlega vanhugsaðar en mér þætti vænt um að heyra um þetta frá hv. þingmanni.