143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki nægar upplýsingar, ég hef ekki getað sett mig nægilega mikið inn í þetta mál sérstaklega til að geta metið hvaða áhrif þessi tiltekni niðurskurður muni hafa á starfsemi Vinnumálastofnunar. Ég er ekki nógu vel inni í því, ég hef ekki upplýsingar til að geta sagt til um það.

En ég ætla aftur að ítreka að það eru réttmætar væntingar sem fólk á atvinnuleysisbótum hefur til þess að fá desemberuppbót. Ef ríkisstjórnin ákveður sem svo að það skuli ekki gert á næsta ári, að ári, þegar við ræðum fjárlög aftur á næsta ári þá á bara segja það: Ókei, þetta sleppur í gegn núna en á næsta ári verður það ekki, og það er okkar stefna. Þá hefur fólk ekki þessar réttmætu væntingar til þess að fá uppbótina.

Ég vil aftur koma inn á, eins og ég kom inn á í ræðu minni, að það er hálfógeðfellt að setja þetta inn til þess að skapa sér einhvern samningsgrundvöll. Stjórnarflokkarnir vita alveg og stjórnarherrarnir vita að þetta er eitthvað sem minni hlutinn mun ekki geta sætt sig við, þannig að þetta er eitt af því sem verður dregið til baka, geri ég ráð fyrir. Það er hálfógeðfellt að nota sér fjárhagsöryggi fólks yfir hátíðarnar til þess að skapa sér samningsstöðu í umræðu um það hvenær eigi að ljúka þingi fyrir jól þannig að þingmenn geti farið heim og haldið gleðileg jól.