143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:36]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að rifja upp fyrir okkur stefnu ungra sjálfstæðismanna í ríkisfjármálum. Það er frekar hrollvekjandi á að hlýða en því miður erum við að feta okkur svolítið inn á þá braut. Hann vitnaði líka í það þegar SUS eða Samband ungra sjálfstæðismanna taldi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vera að festa Íslendinga í skuldafjötra, sem er náttúrlega í besta falli kómískt því að það náðist hér gríðarlegur árangur í ríkisfjármálum svo að eftirtektarvert varð langt út fyrir landsteinana. Það náðist vissulega með hækkun skatta og nýjum sköttum, með miklum niðurskurði en síðast en ekki síst fjárframlögum í alls kyns sjóði, áætlanir, framkvæmdir til þess að efla vöxt í landinu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það fjárlagafrumvarp sem við ræðum nú fyrir árið 2014 gefi okkur von um að við munum ná betri árangri í ríkisfjármálum á næstunni en okkur tókst á síðastliðnum fjórum árum. Er einhver markviss stefnubreyting? Sér þingmaðurinn fyrir sér að þetta séu raunhæf fjárlög, þau muni skila okkur hallalausum ríkissjóði og við séum í raun að byrja að greiða niður skuldir? Telur þingmaðurinn þetta frumvarp gefa fyrirheit um það?