143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:38]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það eru náttúrlega mismunandi áherslur þarna, en ég held að þegar öllu sé á botninn hvolft sé þannig séð ekki stefnubreyting.

Síðasta ríkisstjórn erfði hrunið og þurfti að gera það sem hún gerði og hún hélt vel á efnahagsmálum, mundi ég segja. Nú erum við komin á þann stað að það er í spilunum að hægt er bjóða upp á hallalaus fjárlög í orði en ég sé það ekki gerast í raunveruleikanum. Þetta eru 500 milljónir, hálfur milljarður, sem fjárlögin eiga að vera í plús og ekki hægt að ætla að ekki komi einhver falinn kostnaður, að sjálfsögðu kemur einhver falinn kostnaður sem mun þýða að fjárlögin koma út í halla. Ég veit ekki í hversu miklum halla en líklega ekki mjög miklum. Ég held að það sé til mikils að vinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn þegar kemur að því að byggja aftur upp ímynd flokksins sem efnahagslega ábyrgur flokkur. Það er kjarninn í sérhæfingu þeirra og þeir vilja hafa samkeppnisforskot á aðra á því sviði. Ég held að þeir muni reyna sitt besta til að hafa fjárlögin hallalaus því að ef þeim tekst það væri það að sjálfsögðu svakaleg fjöður í þeirra hatt. Ég veit ekki hvort þeim tekst það en mér þykir það ólíklegt miðað við að hálfur milljarður eigi að vera í plús samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eða tillögunum.