143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:45]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni um þetta stóra mál, fjárlög íslenska ríkisins á árinu 2014, bar ég fram fjöldann allan af spurningum sem ég hef ekki enn þá fengið nein svör við vegna þess að það er með ólíkindum hversu lítinn þátt stjórnarliðar taka í þessari umræðu. Það er mjög undarlegt ef við fáum ekki svör við spurningum sem við leggjum fram í umræðunni. En ég ætla að vona að úr því verði bætt núna og ég ætla að spyrja nokkurra spurninga til viðbótar og leggja fram vangaveltur sem ég tel að skipti máli og vekja vonandi einhverja til umhugsunar en jafnframt vil ég taka undir með öðrum sem hér hafa talað í dag.

Það sem var rætt í síðasta andsvari milli hv. þingmanna Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og Jóns Þórs Ólafssonar er algert grundvallaratriði. Stefnubreytingin sem ríkisstjórnin sýnir með þessum fjárlögum felur akkúrat í sér að verið er að flytja fjármögnun ríkissjóðs af þeim sem eru í millitekjuhópunum og efri tekjunum — það má eiginlega kannski frekar segja efri tekjum í millitekjuhópum vegna þess að millitekjuþrepið er breytt þrep — yfir á lífeyrisþega og aðra slíka sem þurfa t.d. að nota þjónustu sjúkrahúsanna, það er verið að leggja gjöld á breiðu bökin sem þessi ríkisstjórn telur sig hafa fundið. Það er með hreinum ólíkindum hvernig menn telja sig geta haldið því fram að þeir séu að lækka skatta þegar þeir eru ekki að gera neitt annað en að flytja til fjármögnun ríkissjóðs frá einum hópi og yfir á námsmenn, yfir á sjúklinga og þá hópa sem kannski síst geta borið það. Það er að mínu mati röng stefna og ég er alfarið á móti henni vegna þess að þegar svona skattheimta, sem þetta er í raun og veru, er flutt út úr almenna skattkerfinu gilda engir persónuafslættir eða neitt slíkt heldur borga allir sömu krónutölu. Þá er gefið að það leggst hlutfallslega þyngst á þá sem lægstar hafa tekjurnar. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar. Ég mundi frekar vilja að menn væru heiðarlegir og kæmu fram og segðu það en væru ekki í svona feluleik eða beittu svona bellibrögðum með gjaldtöku þar sem skattar eru lækkaðir á einum stað en lauma svo inn gjaldtöku á ákveðna hópa annars staðar.

Það hefur verið töluvert í umræðunni hér og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur haldið því fram og réttlætt sjúklingaskattinn með því að á undanförnum árum hafi hlutdeild sjúklinga í kostnaði í heilbrigðiskerfinu verið að aukast. Mér finnst þetta mjög undarleg röksemdafærsla. Ég hefði frekar talið að við ættum sameiginlega að fara í gegnum það hvernig væri hægt að létta álögum á þá sem þurfa að nota heilbrigðisþjónustuna á Íslandi en ekki að ræða það hvernig við getum fundið enn eina matarholuna fyrir ríkissjóð hjá sjúklingum og seilst í vasa þeirra.

Mér hefur þótt þetta mjög sérkennileg umræða og ég er algerlega andsnúin því að við förum inn á braut sjúklingagjalda vegna þess að ég tel að þar séum við komin inn á afar hálan ís. Yfirleitt er þar um að ræða fólk sem hefur þurft að nota heilbrigðiskerfið í þó nokkurn tíma á undan og það er algert neyðarbrauð þegar það er lagt inn á sjúkrahús og algjört lágmark að það þýði ekki aukinn kostnað fyrir þetta fólk.

Virðulegi forseti. Annað atriði sem ég vil nefna og spyrja líka um snertir skrásetningargjöld. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson flutti mjög áhugaverða ræðu fyrr í dag um hækkun á skrásetningargjöldum í opinberu háskólana og þar birtist enn eina ferðina skattstefna ríkisstjórnarinnar. Ég hélt að þetta snerist bara um að menn væru að nota skrásetningargjöldin til að sækja sér fjármuni í vasa námsmanna til að reka ríkissjóð en svo er bara miklu meira á ferðinni þegar maður fer að lesa saman skjöl frá ólíkum nefndum sem fjalla um ólíka þætti málsins. Ef maður les nefndarálit sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson benti á í dag, nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, þ.e. um bandorminn sem byggir undir fjárlagafrumvarpið, er sagt þar að meiri hlutinn telji að hækkun skólagjalda kunni að hvetja námsmenn til að nýta betur það nám sem opinberir háskólar bjóða upp á. Hérna er ekki verið að tala um skrásetningargjöld heldur skólagjöld.

Í 24. gr. laga um opinbera háskóla segir mjög skýrt um skrásetningargjöld, sem nemendur greiða við skráningu í nám, allt að 60 þús. kr. fyrir hvern nemanda á ársgrundvelli, að álögð gjöld samkvæmt þessu „skulu eigi skila háskóla hærri tekjum en sem nemur samanlögðum útgjöldum háskólans vegna nemendaskráningar og þjónustu við nemendur sem ekki telst til kostnaðar við kennslu og rannsóknastarfsemi.“

Lögin eru skýr. En út í hvað erum við þá komin hér, bæði þegar horft er til nefndarálits meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og þeirrar staðreyndar að verið er að sækja aukna fjármuni í gegnum skrásetningargjöld til námsmanna en háskólarnir fá þá ekki að fullu til sín? Stenst það þessa grein? Ég ætla að leyfa mér að efast um það.

Ég óska eftir því að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar komi hingað í þessa umræðu og geri grein fyrir því hvað þessi orð um skólagjöld í nefndarálitinu fela í sér. Þar er líka gengið lengra því talað er um að sumir hafi talið að hækkun skrásetningargjalda væri of lítil og að nemendur opinberra háskóla greiddu of lítinn hluta námskostnaðar. Nemendur mega samkvæmt lögum ekki greiða hluta námskostnaðar. Menn þurfa aðeins að gæta sín á hvaða stefnubreyting getur falist í því sem gert er í fjárlögum. Þetta er ekki eina dæmið, en ég nefni þetta vegna þess að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson vakti á því athygli og hér erum við kominn á mjög hálan ís. Ég óska eftir því að einhver sem til málsins þekkir í meiri hluta fjárlaganefndar eða efnahags- og viðskiptanefndar komi í umræðuna og skýri hvað er nákvæmlega þarna á ferðinni.

Það eru líka þó nokkrar fleiri spurningar sem vakna. Ég talaði um það áðan að ríkisstjórnin hefði aldeilis fundið „breiðu bökin“ — innan afar áberandi gæsalappa — hjá námsmönnum eins og ég var að fara yfir og hjá sjúklingum, en ég komst ekki yfir í fyrri ræðu að nefna þróunarsamvinnuna. Mér finnst til háborinnar skammar hvernig menn fara hér í þróunarsamvinnuna. Ástæðan er einfaldlega sú að við erum meðal ríkustu þjóða heims. Við erum að tala um stuðning sem er afar lítill í því stóra samhengi vandamála sem til eru í veröldinni fyrir utan og við eigum að sjálfsögðu að taka þátt í því að styðja við þjóðir sem geta ekki einu sinni boðið börnum eða barnshafandi konum upp á hreint vatn sem eru lágmarksgæði, grundvöllur lífs, hreint vatn. Við segjum: Nei, við ætlum að bora okkur svo djúpt ofan í naflann á okkur sjálfum að við tökum ekki þátt í því. Þetta er til skammar.

Ég ætla ekki að halda ræðuna um það aftur, ég gerði það í fyrri ræðu, en við vitum vel hvert er verið að setja þá fjármuni sem teknir eru úr þróunarsamvinnunni, fjármuni sem fást með sjúklingagjöldum, auknum kostnaði námsmanna við háskólanám o.s.frv. Þessir fjármunir eiga að fjármagna auðlindagjöld sem menn afþökkuðu. Þetta þykir mér röng stefna og ég hef svo sem tíundað það áður og ætla ekki að gera það aftur. En að finna breiðu bökin þarna, ja svei, ég hélt að ég hefði séð margt í pólitíkinni en þessu bjóst ég ekki við.

Virðulegu forseti. Það eru fleiri þættir sem ég vil nefna og mig langar að fara aðeins í gegnum nokkur atriði í breytingartillögum meiri hlutans við frumvarpið af því að tíminn flýgur. Ég hef ekki fengið svör við því hvernig menn ætla að útfæra þann aukna niðurskurð í ráðuneytunum sjálfum sem lagður er til í breytingartillögum meiri hlutans. Mér skildist á hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur sem ég spurði að þessu fyrr í dag að þetta væri algerlega óútfært og í raun og veru ættu ráðuneytin sjálf að útfæra þetta. Það þykir mér sérkennilegt vegna þess að nú þegar hafa skrifstofur ráðuneytanna verið skornar mjög mikið niður. Ég tók sem dæmi iðnaðarráðuneytið af því að það er nærtækt fyrir mig sem var þar ráðherra. Við vorum komin langt að 30% í niðurskurði á sjálfri skrifstofu ráðuneytisins á síðasta kjörtímabili. Þarna er verið að bæta enn í. Það hlýtur að leiða af sér uppsagnir í einhverjum ráðuneytum. Hvernig ætla menn að gera það? Er hægt að láta það ganga í gegn á þessu eina ári, er þetta raunhæft? Ef það kemur til uppsagna þá hljóta menn líka að þurfa að hætta við einhver verkefni. Og þegar menn eru komnir inn að beini fyrir og síðan er bætt við 5% niðurskurði almennt á ráðuneytin er orðið stórpólitískt mál hvernig skorið er niður. Það getur þýtt gríðarlega breytingu á verkefnum og áherslum innan ráðuneytanna. Við segjum ekki bara: Okkur vantar nokkra aura til að pappírarnir hjá okkur líti örlítið betur út, best að setja 5% á ráðuneytin, og höldum svo að það hafi engar afleiðingar, látum það bara útfærast einhvern veginn. Þetta er pólitískt mál. Menn geta ekki kastað svona til höndum. Þetta er ofsalega óvandað og ófaglegt og ég held að menn geti lent í miklum vandræðum með þetta.

Ég hef ekki heldur fengið svör við því hvað menn eiga að gera í utanríkisráðuneytinu sem verður mjög harkalega fyrir barðinu á meiri hluta fjárlaganefndar, þeir fá á sig meira en þau 5% sem önnur ráðuneyti fá, ég man ekki hvað það var, kannski 7, 7,5% eða eitthvað slíkt, alla vega töluvert meira. Í ofanálag þarf það að bera eitthvað sem ekkert ráðuneyti hefur þurft að gera nokkurn tíma svo ég muni til. Það þarf að bera skaða vegna fjárdráttar í starfsemi þess. Þetta gerir samtals nærri því 150 millj. kr. á ráðuneytið á næsta ári. Hafa fengist einhver svör við því hvernig þetta á að gerast, hvaða verkefnum verður hætt, hvernig á að draga saman í starfsemi skrifstofu ráðuneytisins? Nei, menn hafa ekki gefið neitt upp um það.

Þarna geta verið meiri háttar pólitísk tíðindi á ferðinni þegar menn byrja að reyna að ná þessum fjármunum niður. Mér finnst menn ekki geta unnið svona, mér finnst þetta rangt. Það er að minnsta kosti lágmark að menn skýri út hvernig niðurskurðinum verður framfylgt.

Og vegna þess að við erum farin að ræða um þessar 47 millj. kr. sem ráðuneyti utanríkismála þarf að bera vegna sorglegs atburðar innan þeirra vébanda, fjárdráttar, vil ég spyrja: Ætlar meiri hluti fjárlaganefndar að setja einhverjar reglur og viðmið um það hvenær stofnunum eða ráðuneytum er skylt að bera skaðann ef svona gerist? Eða gildir það bara um utanríkisráðuneytið núna vegna þess að meiri hluti fjárlaganefndar er með það í sigtinu, þetta sé popúlísk ákvörðun um að taka utanríkisráðuneytið niður? Við höfum alveg heyrt það, það þykir smart í einhverjum hópum. Er það þess vegna sem ráðuneytið er látið bera þennan kostnað núna? Þetta eru engin vinnubrögð.

Hvað um þegar Vegagerðin fékk nýlega á sig dóm vegna þess að það höfðu verið einhverjir gallar í útboði? Á hún þá að bera kostnaðinn af því? Þessu þarf fjárlaganefnd að svara. Ef hún byrjar að láta stofnanir eða ráðuneyti bera skaða sem þær höfðu sannarlega ekki stjórn á — í þessu tilfelli verður ráðuneytið fyrir skaða vegna einbeitts brotavilja einstaklings — erum við komin út á ansi hálar brautir. Mér finnst algert lágmark, fyrst nefndin tók þessa ákvörðun, að hún gefi út einhverja línu um það hvenær menn eigi að bera svona skaða til framtíðar litið. Er það bara þegar einstaklingur dregur sér fé eða á það líka við um galla í útboðum? Hvernig ætla menn að gera þetta til lengri tíma litið? Svona er þetta, virðulegi forseti. Mér finnst menn ekki vanda sig og mér finnst ofsalega tilviljanakennt hvernig þessi niðurskurður á sér stað.

Annað sem ég vil nefna og ég nefndi í andsvari áðan er skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna. Hér er tekin ákvörðun um það af meiri hluta fjárlaganefndar, ekki ráðuneytinu, að starfsemin verði því sem næst lögð niður og sameinuð að einhverju leyti Fjársýslu ríkisins. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta á að fara fram. Hverfur kostnaðurinn af starfseminni með því? Verkefnin eru þarna áfram. Ég tek sem dæmi að skrifstofan sér um alla umsýslu fyrir Tækniþróunarsjóð. Verður kostnaður við að sjá um þá umsýslu eitthvað minni hjá Fjársýslunni en hjá skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna eða þarf Tækniþróunarsjóður núna að fara að borga úr sínum sjóðum fyrir þessa vinnu? Hafa komið svör við þessu? Nei, af því að það veit enginn hvernig þeir ætla að gera þetta, þeir hafa ekki hugmynd um það. Þeir hafa ekki skýrt það fyrir neinum af því að þeir hafa ekki hugmynd um það. Þetta er bara gert til að ná sér í aura til að pappírarnir líti vel út en við eigum eftir að sjá þetta í praxís.

Af hverju er Lögregluskóli ríkisins skorinn niður? Það var ekki há tala en hún stakk mig. Sagt er að þetta sé gert til að fjármagna að hluta breytta forgangsröðun verkefna í málaflokkum innanríkisráðuneytisins. Ég veit ekki betur en Lögregluskólinn hafi verið í fjárþörf fyrir, hvað þýðir þetta fyrir hann? Það væri gott að fá svör við því líka.

Virðulegi forseti. Að lokum ætla ég að segja að mér þykir þessi ríkisstjórn ansi grimm í því að sniðganga þá sem hafa lægstu tekjurnar í samfélaginu. Sá hópur heyrir að litlu leyti undir tillögur um skuldaniðurfellingu. Leigjendur eru t.d. ekki með í þeim tillögum og þetta mun skila sér að litlu leyti til þeirra sem eru með kannski lægstu tekjurnar. Skattbreytingin, lækkunin á milliþrepið gerir það ekki heldur, þeir fá ekkert út úr því. Breytingar á lögum um lífeyrisþega í sumar skiluðu tekjulægstu lífeyrisþegunum ekki neinu. Það eina sem þeir fá er að greiða nefskatta að fullu vegna Ríkisútvarpsins en þeir fá ekki þjónustuna sem menn eru að greiða fyrir. Svo eru sjúklingaskattar fram undan og stór hluti af þeim sem eru í tekjulægstu þrepunum er einmitt því miður sá hópur sem þarf hvað mest á heilbrigðisþjónustu að halda oft og tíðum.

Mér finnst þessi stefna röng og þegar maður reynir að horfa á stóru myndina þá er hópurinn sem er með tekjur undir 300 þús. kr. mestmegnis skilinn eftir í tillögum ríkisstjórnarinnar. Mér finnst það vera umhugsunarefni fyrir þingmenn stjórnarmeirihlutans hvort þeir geti ekki reynt að finna það hjá sér í þeirri vinnu sem fram undan er næstu daga hvort þetta sé rétt og hvort ekki þurfi að gera eitthvað í því, þó ekki væri nema með því að atvinnulausir fengju desemberuppbót eins og þeir hafa fengið síðustu þrjú ár. Það er enn þá tími og ég vona að menn sjái að sér og reyni að koma til móts við tekjulægstu hópana í samfélaginu. Það er hægt að gera það með margvíslegum hætti og við í Samfylkingunni munum ekki liggja á liði okkar við að styðja slíkar tillögur, komi þær fram.