143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[22:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður flutti hér góða ræðu og kom inn á stöðu lágtekjufólks í landinu gagnvart ríkisvaldinu. Það blæs nú ekki byrlega þar og má kannski segja að lágtekjufólk í landinu hafi fengið kartöflu í skóinn frá ríkisstjórninni. Það er niðurskurður víða eins og hjá Vinnumálastofnun og desemberuppbótin er ekki inni. Ýmsir nefskattar hækka sjálfkrafa eftir verðlagsuppfærslu og skattalækkanir nýtast ekki lágtekjufólki.

Hvað telur hv. þingmaður að ríkisvaldinu gangi til? Er það að efna til ófriðar að fyrra bragði gagnvart þeim kjarasamningum sem eru nú undir og eru komnir til ríkissáttasemjara eða telur hv. þingmaður að ríkisvaldið hafi eitthvað uppi í erminni til að spila út þegar þeir sem eru að semja um kaup og kjör og lágtekjufólk í landinu hefur fengið þessa blautu tusku í andlitið? Er eitthvað í þessu fjárlagafrumvarpi sem hv. þingmaður telur að sé jákvætt innlegg í þær kjaraviðræður sem nú standa yfir? Ef hún leggur sig alla fram um að vera jákvæð gagnvart ríkisvaldinu í anda jólanna fram undan finnur hún þá eitthvað annað en kartöflu í skóm þess fólks sem þarf að lifa við lægstu laun í landinu, frá 191 þús. kr., sem er því miður fjöldinn allur? Það er eins og hv. ríkisstjórn haldi að slíkar upphæðir séu bara tölur á blaði og enginn búi við slík kjör. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður gæti bent á eitthvað í þessu frumvarpi sem væri sérstaklega ætlað lágtekjufólki í landinu.