143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[22:20]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir áhugaverða ræðu. Hún minntist aðeins á þróunaraðstoð í ræðunni og varðandi hana þá vilja að sjálfsögðu flestir að mun meiri fjármunum sé varið í slíka aðstoð en er í þessu frumvarpi. Það var líka gerð á sínum tíma metnaðarfull áætlun um að auka þessa aðstoð og ná þeim markmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett á nokkrum árum. Það breytir því samt ekki að í tíð síðustu ríkisstjórnar, árið 2011, voru settir um 3 milljarðar kr. í þróunaraðstoð, 0,21% af vergum þjóðartekjum sem er náttúrlega mjög langt frá þeim 0,7% eða hvað það er sem Sameinuðu þjóðirnar hafa mælt með. Árið 2012 var það sama prósentutala, 0,21%.

Maður hlýtur því að spyrja ef hv. þingmanni blöskrar það sem er verið að gera núna hvað hún geti þá sagt um það sem hennar eigin ríkisstjórn gerði á sínum tíma. Af hverju beitti hún sér ekki fastar í þessum málum?