143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir orð formanns Vinstri grænna áðan, ég er ánægð með að okkur hafi tekist að fá desemberuppbótina aftur inn og að ekki yrðu lögð gjöld á sjúklinga og við fengjum meira fjármagn í rannsókna- og þróunarsjóði.

Ég vil líka lýsa sérstakri ánægju yfir því að við gátum varið brothættar byggðir. Þar var kannski ekki um mikla fjármuni að ræða í heildarsamhenginu, 50 milljónir, en munaði miklu fyrir þetta verkefni, hvort hægt væri að halda áfram með það eða ekki. Þetta verkefni hófst á síðasta kjörtímabili og hefur verið gífurlega vel unnið með heimamönnum. Með þeim niðurskurði sem boðaður var í fjárlögum var verið að slá verkefnið algjörlega út af borðinu en okkur tókst að ná því inn aftur. Þetta eru veikar byggðir sem hafa staðið frammi fyrir viðvarandi fólksfækkun. Við erum sem ein þjóð, við verðum að standa með þessum veiku byggðum og nú má ekki vinna gegn því góða verki sem farið var af stað. Ég er ánægð með að stjórnarliðum snerist hugur og að þeir vildu halda áfram þessu mikilvæga verkefni.

Ég segi það að þó að við höfum náð þessu samkomulagi, sem var mjög gott að tókst, er auðvitað langt frá því að maður sé ánægður með þau fjárlög sem liggja fyrir. En við þurfum að horfast í augu við það að við erum í stjórnarandstöðu og reynum hvað við getum til að hafa áhrif til góðra hluta. Ég tel að okkur hafi tekist það í þessu samkomulagi þó að maður horfi auðvitað upp á verkefni nú sem eru ekki þarna inni. Ég er mjög ósátt við það að við gátum ekki komið með fjármagn inn í RÚV og til þróunaraðstoðar og svona mætti áfram telja, en þegar samningar eru gerðir þarf að lenda einhvers staðar og ég tel þetta góða niðurstöðu.