143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að náðst hefur samkomulag um þinglok. Ég held að mikilvægasta verkefni okkar þingmanna sé að fækka þeim sem þurfa á desemberuppbót að halda, sérstaklega þeim sem eru atvinnulausir og í atvinnuleit. Ég held að okkar mikilvægasta verkefni sé að að ári verði færri atvinnulausir sem þurfa á því að halda að fá launauppbætur í desember. En til þess þarf að virkja þau tækifæri sem bíða í atvinnulífinu og þar þurfum við fyrst og fremst að virkja Landsvirkjun til að leggja sitt af mörkum til að skapa á Íslandi fleiri betur launuð störf. Það er verkefni næstu mánaða.

Á síðustu árum, frá 2007 til 2012, lækkuðu skuldir Landsvirkjunar um 50 milljarða, u.þ.b. 10 milljarða á ári. Það eru þær tekjur sem Landsvirkjun hefur haft af stóriðjunni og auðvitað allri orkusölu í landinu. Það hefur verið talað um að verð á orkunni hafi verið mjög lágt en samt sem áður greiðir Landsvirkjun skuldir sínar niður um 50 milljarða. Það er mjög gott.

Álframleiðsla skapar 23% af útflutningsverðmæti þjóðarinnar, u.þ.b. 226 milljarða. Hún skapar 5 þús. störf þar sem meðallaunin eru yfir 450 þús. kr. á mánuði. Þetta er það sem þjóðfélagið þarf á að halda núna í staðinn fyrir að rífast um desemberuppbætur handa þeim sem eru að leita sér að atvinnu. Við þurfum að skapa þeim atvinnu og það er verkefni framtíðarinnar.