143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Í fjárlögunum birtist okkur stefna ríkisstjórnarinnar. Efnahagslegar forsendur eru sá grunnur sem slík áætlun tekna og útgjalda hins opinbera byggir á. Markmiðið hlýtur hverju sinni að vera að bæta lífskjör í bráð og lengd. Margir hv. þingmenn hafa rætt fjárlögin í þessu samhengi sem annað af meginhagstjórnartækjum ríkisstjórnarinnar. Fjármálastefnan hefur þannig áhrif á okkar helstu hagstærðir og getur sem slíkt tæki haft áhrif á framleiðslu, verðlag og atvinnustig. Áætluð afkoma endurspeglar þær áherslur sem birtast í samneyslugjöldunum og tekjuaðgerðum gagnvart einstaklingum, heimilum og fyrirtækjum.

Virðulegi forseti. Efnahagslegar forsendur eru býsna snúnar, uppsafnaðar skuldir, gríðarleg vaxtagjöld á sama tíma og heimilin eru ofurskuldsett og atvinnuleysi er í kringum 5%. Við þurfum því á eftirspurnarhvetjandi aðgerðum að halda og við þurfum að stöðva skuldasöfnun, snúa sex ára samfelldum hallarekstri í afgang, draga úr vaxtabyrði og mynda viðspyrnu. Þetta hafa allir hv. þingmenn verið meira og minna sammála um í 2. umr. fjárlagaumræðunnar. Eftirspurnarhvetjandi aðgerðir stefnunnar sjáum við á tekjuhliðinni, til þess fallnar að auka ráðstöfunartekjur heimila og fyrirtækja. Á útgjaldahliðinni er velferðin varin, barnabætur, aukin framlög til elli- og örorkuþega, stóraukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar — og já, blessunarlega desemberuppbót. Þessu er meðal annars mætt með breiðari skattstofnum, auknum álögum á fjármálastofnanir og hagræðingaraðgerðum.

Virðulegi forseti. Ef við keyrum þessa áætlun fram (Forseti hringir.) af aga og festu er ástæða til bjartsýni um bætt lífskjör.