143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það sem kemur fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur er akkúrat það sem minni hlutinn var að reyna að gera með því að kalla eftir miklu meiri samvinnu og samráði með forustumönnum ríkisstjórnarinnar. Það var ein af kröfunum í þessum samræðum sem formennirnir áttu við meirihlutaformennina. Ég vona að það verði orðið við þeim einlægu óskum að það verði farið miklu fyrr af stað í að finna álagspunktana á milli okkar.

En það tókst eftir hina dæmigerðu maraþonfundi við þinglok með formönnum flokkanna að ná því í gegn sem ég vissi í raun og veru allan tímann að mundi nást í gegn, desemberuppbótinni og komugjöldum á sjúkrahús, eins og ég ræddi meðal annars á fundi þingflokksformanna. Þá tókst að fá í gegn að þverpólitísk nefnd kæmi að útfærslu á gjaldtöku á nýjum tegundum af sjávarfangi, þ.e. makríl núna og vonandi verður það til umræðu með öðru sjávarfangi eftir að höfin breytast. Útfærsla á skuldaleiðréttingu mun koma fram í frumvarpinu sem verður hér til umfjöllunar, þ.e. kemur fram í heimildarákvæði fjárlaga. Þetta er gríðarlega mikilvægt af því að það skiptir máli þegar við erum að tala um að veita heimildir fyrir 20 milljarða sem renna í gegnum ríkissjóð að það sé skýrt hvernig það muni ganga fyrir sig.

Það er mjög margt sem ég var ánægð með og ég verð að segja að þó að mörgum leiðist málþófið er það eina verkfærið sem við höfum til að ná stjórninni að borðinu. Við náðum mikilvægum skrefum og minni hlutinn varð við ósk hv. þingmanns, núverandi ráðherra, (Forseti hringir.) Eyglóar Harðardóttur, og það er vel. Ég þakka öllum sem tóku þátt í þeirri mikilvægu vinnu að ná ákveðnum sáttum hér.