143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Eins og flestallir sem hafa komið í ræðustól fagna ég því samkomulagi sem náðist í gær. Það er gott að við getum glaðst yfir því sem náðist í gegn. Það sem mér finnst þó standa upp úr í sambandi við þetta haust og þessa fjárlagagerð eru þau vinnubrögð sem viðhöfð eru á Alþingi. Það er dálítið gaman að fylgjast með því hvernig menn berja sér á brjóst og fagna því að hafa náð hinu og þessu í gegn og slá sig jafnvel til riddara, en mér finnst það ekki aðalatriðið hjá stjórnmálamönnum að þeir geri það.

Það að við skulum ná samkomulagi um að borga atvinnulausum desemberuppbót er fáránlegt fyrir minn smekk. Þetta á ekki að vera einhver ásteytingarsteinn í þinginu, mér bara finnst það. Og mér finnst það ekki til vegsauka fyrir Alþingi að nota þetta sem eitthvert samningsatriði til að koma fjárlögum í gegn.

Mér finnst vinnubrögðin hér í haust hafa verið vægast sagt slæm. Við getum deilt um þessi fjárlög, auðvitað eru ríkisstjórnin og flokkar hennar ánægð með þessi fjárlög, það er bara eðlilegt, þetta eru fjárlögin hennar. Við í Bjartri framtíð höfum komið í ræðustól og sagt hvaða áherslur við leggjum. Við erum stoltust af því að taka ekki þátt í þessum hráskinnaleik sem fer alltaf af stað í þinginu rétt fyrir jól. (SJS: Þið eruð svo miklu betri en við hin.) Nei, það er ekkert rétt, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, það er bara ekki rétt. Við erum ekkert að slá okkur á brjóst og segjast vera eitthvað betri en aðrir. Við erum kosin hingað inn til að vinna fyrir almenning og það að við þurfum að rífast hérna rétt fyrir jól um desemberuppbót fyrir atvinnulausa er fáránlegt. Það er fullt í þessu fjárlagafrumvarpi sem við hefðum getað rifist um sem átti vel að halda áfram, eins og fjárfestingaráætlun þinnar ríkisstjórnar sem var hent út um gluggann.

Ég gleðst samt yfir því að hafa tekið þátt í þessari umræðu og að við höfum náð þessu samkomulagi. Ég vil að við horfum bjartsýn til framtíðar, við getum það alveg, en bætum þessi vinnubrögð, förum fyrr af stað og höfum meira samráð næst þegar við vinnum fjárlög.