143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[11:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég er gríðarlega ánægður með þetta frumvarp. Það nær þeim markmiðum sem Hanna Birna fór af stað með, að stöðva nauðungarsölur tímabundið. Fresturinn, sem átti að gilda til 1. júlí, var meira að segja framlengdur og gildir samkvæmt breytingartillögum nefndarinnar til 1. september. Að auki var bætt við, og aftur vil ég nefna að hæstv. innanríkisráðherra kallaði eftir því og lagði áherslu á það, ákvæði um að þeir sem hefðu þegar lent í nauðungarsölu fengju aukinn samningsfrest þannig að beðið væri með endanlegt uppboð á eigninni með sama fresti, fram til 1. september. Þetta er meðal annars það sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa kallað eftir. Það er því gríðarleg sátt í nefndinni við þá aðila sem hafa hvað harðast barist fyrir hagsmunum lántakenda og réttindum þeirra. Þeir sem ég hef talað við eru mjög sáttir. Þetta er vel gert og hæstv. innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, á mikinn heiður skilinn fyrir að hafa tekið vel á málinu.

Fyrirvari minn í þessu er ekki af því að ég sé ekki sáttur við frumvarpið eins og það er lagt fram með breytingartillögu nefndarinnar, heldur vildi ég nefna sérstaklega að það er einn hópur sem það nær ekki til og er ekki hægt að ná til með frumvarpinu og þá þarf önnur úrræði fyrir þann hóp með lögum síðar. Þetta er fólk sem þegar hefur verið gert gjaldþrota og eignir þess farið inn í þrotabú. Það á ekki lengur eignina þannig að ekki er hægt að ná því inn í frumvarpið. Það er skiptastjóri sem fer með þá eign. Ég kalla eftir því að skiptastjórar setji eignirnar ekki í sölu á frestinum sem þessi frumvörp ná til. Skiptastjórar gætu þannig séð, sem aðilar sem eru komnir með rétt yfir eigninni, kallað sjálfir eftir því að nýta frestinn um nauðungarsölur og slíkt þannig að það fólk fái líka þennan frest.

Samt sem áður er eignin komin frá fólkinu, það er búið að gera það gjaldþrota svo það þarf að finna einhverja leið. Ef mál Hagsmunasamtaka heimilanna um ólögmæti verðtryggingarinnar klárast fyrir Hæstarétti á þessu tímabili, á fyrri hluta næsta árs, eins og það ætti að gera samkvæmt flýtimeðferð, — sem það fær út af því að hæstv. innanríkisráðherra fékk lög samþykkt um flýtimeðferð dómsmála á sumarþingi og málið ætti því að geta klárast sem fyrst, á tveimur, þremur, mögulega fjórum mánuðum — fáum við staðfest hvort verðtryggingin sé lögmæt. Ef hún er það ekki, eins og ég tel — að það séu þá komin lög sem tryggja að fólk geti fengið endurupptöku á málum sínum og geti fengið eignina aftur sem er komin í þrotabú, leyst hana til sín. Það er því mjög mikilvægt að þeir sem fara með þrotabúin, skiptastjórarnir, virði anda þessara laga og það sem er verið að reyna að ná fram og kalli sjálfir eftir því og fari ekki í að selja þessar eignir nauðungarsölu.

Annars var ég ofboðslega ánægður með þetta og vil aftur þakka hæstv. innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrir frumvarpið.