143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[11:14]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka framsögumanni málsins, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, og allsherjar- og menntamálanefnd kærlega fyrir að hafa unnið þetta mál hratt og vel. Það sem ég vil leggja áherslu á, og tala þá frekar til þeirra sem standa frammi fyrir því að bjóða á upp eignir þeirra, er að leita til umboðsmanns skuldara, að bíða ekki fram að skuldaleiðréttingu eða bíða með að leita hjálpar heldur fara til umboðsmanns skuldara. Eins og hefur komið fram í umfjöllun fjölmiðla undanfarna daga hefur fólk fengið umtalsvert meiri afskriftir í gegnum þau úrræði sem umboðsmaður skuldara býður upp á varðandi greiðsluaðlögunina. Ég er ekki hér með að segja að það fara í gegnum greiðsluaðlögun sé auðvelt eða þægilegt ferli, en þar er hins vegar í boði leið sem getur tekið með varanlegum hætti á miklum greiðslu- og skuldavanda, þar eru sérfræðingar sem eru vanir að aðstoða fólk og leiðbeina því í slíkum vanda.

Ég vil því hvetja fólk til að leita þangað á þessum tíma og nota tímann til að fara vel yfir skuldamál sín.