143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

177. mál
[12:02]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri hér grein fyrir nefndaráliti við breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Frumvarpið fjallar um breytingu á skilyrðum til greiðslu örorkulífeyris og fjárfestingarheimildir. Frumvarpið sjálft er í þremur greinum fyrir utan gildistöku. Efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um frumvarpið eins og henni ber og fyrir nefndina komu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis og Landssamtaka lífeyrissjóða. Svo komu umsagnir frá Viðskiptaráði Íslands, Landssamtökum lífeyrissjóða, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Öryrkjabandalagi Íslands og Samtökum atvinnulífsins.

Nefndin hefur áður fjallað um efni frumvarpsins. Frumvarpsgreinar sama efnis var að finna í frumvarpi sem nefndin fékk til meðferðar á 142. löggjafarþingi, samanber þskj. 113 í 48. máli þingsins. Í það sinn þurfti nefndin meiri tíma til yfirferðar og lagði til að samþykkt tiltekinnar frumvarpsgreinar yrði frestað til næsta löggjafarþings. Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins og mæltu flestir með því að það yrði samþykkt.

Fyrir nefndinni kom fram að aðgengi manna að endurhæfingu er mjög mismunandi og því kynni sumum að reynast mjög erfitt að uppfylla skilyrði greinarinnar fyrir greiðslu örorkulífeyris. Bent var á að staða þeirra sem búa í dreifðari byggðum landsins verði stundum mjög erfið og óraunhæft væri að ætlast til þess að þeir sæktu nauðsynlega þjónustu um langan veg. Þá kom fram að staða innflytjenda væri oft erfið. Þeir ættu t.d. erfiðara með að nýta sér endurhæfingarúrræði eins og viðtalsmeðferðir vegna tungumálaörðugleika.

Að áliti nefndarinnar er rétt að bregðast við þessari stöðu. Af þeim sökum leggur nefndin til breytingu á 1. gr. frumvarpsins. Þannig verði aðeins heimilt að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem geti bætt heilsufar hans að þess sé gætt að slík endurhæfing standi honum til boða og aðstæður viðkomandi leyfi að hann nýti sér hana.

Þetta er breytingartillaga, hún er mjög einföld og bætist við 1. gr. frumvarpsins. 2. gr. fjallar um möguleika þeirra launagreiðenda sem eru með ábyrgð á sjóðum til að gera upp skuldbindingar við sjóðinn. 3. gr. er framlenging á heimild lífeyrissjóða til eignar hlutafjár í samlagshlutafélögum og kemur fram að sú heimild renni ekki út í árslok 2013 heldur 2014.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Vilhjálmur Bjarnason, framsögumaður, Pétur H. Blöndal, Árni Páll Árnason, með fyrirvara, Líneik Anna Sævarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, með fyrirvara, og Guðmundur Steingrímsson.

Hv. þingmenn Árni Páll Árnason og Steingrímur J. Sigfússon gera ekki grein fyrir fyrirvara sínum í nefndarálitinu, en kunna að gera það hér í umræðu á eftir.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.