143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

177. mál
[12:06]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Við þingmenn Pírata erum með breytingartillögu við þetta frumvarp sem hljóðar svo:

„1. Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Lífeyrissjóður er eign sjóðfélaga sinna. Innstæða eða réttindi samkvæmt samningi um tryggingavernd eru eign rétthafa.“

Þessi tillaga er í rauninni bara copy/paste, með leyfi forseta, af tillögu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur flutt tvisvar áður, ef ekki þrisvar sinnum. Það sem þetta mun líka þýða, svo ég haldi áfram, er að það verða sjóðfélagar sem kjósa stjórnir lífeyrissjóða, það verða sjóðfélagar sem kjósa þá sem fara með fé þeirra. Það eru grunnréttindi. Það er ótrúlegt að þetta skuli ekki vera þarna nú þegar sem segir okkur hve sterkir hagsmunir eru gegn þessu. Nokkrir lífeyrissjóðir hafa tekið þetta upp sjálfir, en flestir hafa annað fyrirkomulag. Flestir hafa það gamla fyrirkomulag að atvinnulífið, þeir sem standa fyrir hagsmunum atvinnulífsins annars vegar og þeir sem standa fyrir hagsmunum verkalýðsfélaganna hins vegar, ráði því hverjir stjórni sjóðum sem fara með fé sjóðfélaganna, sem fara með fé fólks sem er skyldað lögum samkvæmt að setja fé í lífeyrissjóði.

Þetta þarf að laga. Það mun breytast þegar fram í sækir. Fólk í dag sættir sig ekki við slíkt ólýðræðislegt fyrirkomulag lengur. Lýðræðiskrafan á eftir að aukast í samfélögunum vegna þess að fólk sem lifir á internetinu, fólk sem ver miklum tíma á internetinu, upplifir allt annars konar veruleika en fólk sem eyddi sínum frítíma fyrir framan sjónvarpið, þar sem það situr og tekur við völdum upplýsingum. Fólk í dag tekur þátt í afþreyingu sinni. Það tekur þátt í samfélagi sínu í miklu meira mæli en hefur verið hægt hingað til. Slíkt fólk krefst þess að fá að taka þátt á fleiri sviðum samfélagsins. Sú krafa er ekkert að fara. Þetta er undiralda sem á eftir að vaxa. Á endanum verður því tillagan, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt fram í tví- eða þrígang, samþykkt.

Við setjum þetta hérna inn sem breytingartillögu og vonum að það verði klárað, að þessi grundvallarlýðræðisréttindi verði afgreidd og sjóðfélagar fái að kjósa stjórnir í sínum sjóðum, stjórnir sem síðan ráða framkvæmdastjóra og í rauninni stjórna því hvernig farið er með fé sjóðfélaga.