143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Nú er sannarlega ástæða til að óska hæstv. fjármálaráðherra, fjárlaganefnd og raunar þingmönnum öllum til hamingju með fjárlög sem marka mikil tímamót. Það hefur tekist að snúa af braut niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu og ná fram verulegri viðbót í framlögum til heilbrigðismála. Það hefur tekist að afnema skerðingar á kjörum eldri borgara og öryrkja og þar er veruleg aukning framlaga, og raunar í ýmsum félagsmálum öðrum, þannig að framlög til þeirra málaflokka verða þau mestu sem nokkurn tíma hafa verið í sögu landsins. Umfangsmiklar aðgerðir í þágu heimilanna hafa verið kynntar og eru liður í þessum fjárlögum og svo mætti lengi telja.

Á sama tíma er hindrunum rutt úr vegi varðandi óvissu og ýmsum öðrum hindrunum sem hafa haldið aftur af efnahagslegum vexti, þannig að við getum horft fram á nýtt hagvaxtarskeið í framhaldi af þessum fjárlögum.

Loks hefur tekist að finna fjármagn í liði sem höfðu verið vanræktir, m.a. á fjárlögum ársins 2013, og allt er þetta gert á sama tíma og fjárlögum er skilað hallalausum í fyrsta skipti frá efnahagshruni. Það er sannarlega ástæða til að óska mönnum til hamingju með þessa niðurstöðu.