143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:19]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Píratar eru ekki með heildstæða mótaða stefnu um það hvernig eigi að greiða atkvæði um fjárlagafrumvarpið. Það er mjög margt í þessum fjárlögum sem ég fagna, þar á meðal og sér í lagi auknum framlögum til heilbrigðiskerfisins sem er mjög mikilsvert. Heilbrigðiskerfi okkar var orðið svo holað að innan að það var að brotna saman. Ég fagna því þessum auknu framlögum.

Ég fagna ekki niðurskurði sem hefur orðið í ýmsum greinum og við ræddum við formenn flokkanna undanfarna daga. En það er ljóst að fjárlögin snúast alltaf um pólitíska sýn. Að einhverju leyti eru Píratar sammála þeirri pólitísku sýn sem sést í fjárlögum og að einhverju leyti erum við ósammála henni. Það mun endurspeglast í atkvæðagreiðslum okkar.