143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við teljum að það séu margir veikleikar í þessu frumvarpi og sérstaklega á gjaldahliðinni og það er kannski fullsnemmt að fagna hallalausum ríkisrekstri 2014 núna þótt við vonum auðvitað öll að það verði afgangur. Ég held að við öll getum verið sammála um að það sé mjög mikilvægt. En það eru veikleikar bæði á gjaldahliðinni og tekjuhliðinni.

Varðandi vinnuna, svo ég sé með smáleiðindi, finnst mér hún hafa verið frekar ómarkviss og einkennst af seinagangi og tímapressu sem endar síðan í þessum hefðbundnu ógöngum þar sem verið er að semja á elleftu stundu.

Við í Bjartri framtíð leggjum fram breytingartillögu og um afstöðu okkar til fjárlagafrumvarpsins má lesa í nefndaráliti okkar.