143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil stíga hér upp til að þakka fjárlaganefndinni fyrir gott samstarf fyrir þessa 2. umr. fjárlagafrumvarpsins og atkvæðagreiðsluna. Það eru vissulega ýmsar breytingar sem gerðar eru á upphaflegu frumvarpi en það er alvanalegt. Mestu máli skiptir að tekist hefur mjög góð samstaða um að tryggja hallalaus fjárlög á næsta ári. Það verður auðvitað krefjandi verkefni að fylgja þeirri ákvörðun stíft eftir með góðu aðhaldi með stofnunum kerfisins, en á seinni árum hefur það gengið betur en lengi vel.

Mestu skiptir sömuleiðis að við erum að kynna nýjar áherslur. Við viljum hverfa frá þeirri braut að hækka sífellt skatta á atvinnustarfsemina og einstaklinga í landinu til að ná endum saman en teljum, eins og skýrt hefur komið fram, að tími sé kominn til að fjármálakerfið taki með myndarlegri hætti en hingað til hefur átt við, og þá ekki síst fyrirtæki í slitameðferð, (Forseti hringir.) þátt í því að endurheimta þann mikla samfélagslega kostnað sem leiddi af hruninu.