143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom áðan leggjum við jafnaðarmenn fram heildstæða breytingartillögu þar sem áhersla er lögð á að bæta kjörin og styðja við lágtekjufólk og fólk á meðaltekjum. Í tillögu okkar felst valkostur við stefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur helst falist í því að flytja byrðar af þeim sem best eru í færum til að bera þær yfir á venjulegt fólk og fyrirtæki. Við viljum leggja fé til uppbyggingarverkefna í velferðarþjónustu, menntun, menningu, rannsóknum og þróun. Með sama hætti viljum við axla ábyrgð okkar í samfélagi þjóðanna með því að virða þá þingsályktun sem allir flokkar samþykktu hér á þingi um þróunarsamvinnu vorið 2011. Við viljum fjármagna uppbyggingu með alvöruveiðigjöldum en ekki því afsláttargjaldi sem núverandi ríkisstjórnarflokkar vilja leggja á og með gjöldum á úthlutun nýrra tegunda eins og makríls.