143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:30]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er afstaða þingflokks Bjartrar framtíðar að þessar tillögur, kæmu þær til framkvæmda, mundu bæta fjárlagafrumvarpið. Ef við greiðum atkvæði um þessa tillögur í heild greiðum við atkvæði með þeim en þó með fyrirvara um tekjuhliðina. Við sjáum kannski ýmsar aðrar útfærslur en þarna eru lagðar til. Ég vil þó nota tækifærið í því sambandi og benda á að það hefur verið algert lykilatriði í málflutningi allra minnihlutaflokka hér á þingi í umræðum um fjárlög og tekjuöflun á þessum þingvetri að við höfum alltaf, held ég, lagt fram tillögur til tekjuöflunar á móti útgjaldatillögum okkar. Þær eru fjölmargar góðar fyrir hendi.

Afstaða okkar til þessara breytingartillagna er jákvæð og ég vil nota tækifærið og lýsa yfir að það sama gildir um breytingartillögur þingflokks Vinstri grænna.