143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er rétt að koma hingað upp þegar hv. þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna koma hingað upp og segja að það sé ekkert sett til þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Við erum í þessum fjárlögum að setja 4 þús. millj. kr. í heilbrigðiskerfið, 5 þús. millj. kr. í auknar tekjur til launþega, 6 þús. millj. kr. í bótakerfið — bætur hafa aldrei verið hærri — og 20 þús. millj. kr. til að leiðrétta skuldir heimila.

Hér leggur Samfylkingin til bankaskatt sem hún gerði ekkert í í fjögur ár en sat þó í fjögur ár í ríkisstjórn. Við erum sammála því að þetta sé hægt en það er merkilegt að menn hafa ekki orðið sammála okkur fyrr um það. Hér er enn þá talað um veiðigjöld og að við höfum lækkað þau. Það er þvert á móti þannig að við hækkuðum veiðigjöld á þá sem geta staðið undir þeim um 40% í sumar og lækkuðum þau á þá sem geta ekki staðið undir þeim, hringinn í kringum landið, lítil og meðalstór fyrirtæki. Ég bíð enn eftir tillögum um hvar eigi að hækka, þeim fjárhæðum. Það kom ekki fram í umræðum í fjárlögunum þrátt fyrir að menn væru spurðir að því.