143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur við upphaf atkvæðagreiðslunnar höfum við í Samfylkingunni freistað þess að ná fram heildstæðum breytingum á því fjárlagafrumvarpi sem hér var lagt fram.

Nú hafa þær tillögur verið felldar og munum við í þeim atkvæðagreiðslum sem á eftir fylgja sitja hjá. Þar er þó margt góðra tillagna og ýmislegt sem til framfara horfir og annað sem við erum síðan ósammála, eins og gengur, en eðlilegast er að sitja hjá að tillögum okkar felldum sem og við fjárlagafrumvarpið sjálft, enda er það á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.