143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Afstaða okkar er sú að ótímabært sé að fara í þá lækkun tekjuskatts sem ríkisstjórnin leggur til með prósentulækkun á miðþrepi um 0,8. Auk þess teljum við útfærslu þeirrar breytingar félagslega óréttláta. Eigi að hrófla við álagningarprósentum eða þrepamörkum í hinu þrepaskipta tekjuskattskerfi á að útfæra þær breytingar þannig að þær komi hinum tekjulægstu og lægri millitekjuhópum sérstaklega til góða en ekki sneiða algerlega framhjá þeim, eins og tillögur ríkisstjórnarinnar gera og gagnast best fólki í efra tekjubili miðþrepsins, fólki með 500–700 þús. kr. í mánaðartekjur en skila hinum tekjulægstu ekki neinu. Það getur ekki talist réttlát útfærsla. Við teljum að þessu fjármagni ætti að verja í forgangsverkefni á sviði heilbrigðis- og menntamála, nýsköpunar, byggðatengdra verkefna o.s.frv. í samræmi við breytingartillögur okkar.