143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um sóknaráætlun landshluta og í tillögum okkar gerum við ráð fyrir því að leggja þar inn 400 millj. kr. til viðbótar við þær 15 millj. kr. sem eru í fjárlagafrumvarpinu. Mikil vinna hefur verið lögð í það af hundruðum sveitarstjórnarmanna og fagfólks að móta aðferðafræðina eftir því sem Stjórnarráðið hefur byggt upp stýrinet ráðuneyta til að einfalda samskipti við aðila að landshlutum. Öll sú vinna er nú sett í uppnám og einnig hugmyndafræðin um völd og áhrif úti í landshlutunum.

Að vísu kom ríkisstjórnin nú inn með 85 millj. kr. en þær duga skammt, þótt það sé í rétta átt. Við teljum að leggja þurfi þessum mikilvægu sóknaráætlunum lið því að þær hafa gagnast vel og það hefur sýnt sig að þær eru mikill stuðningur við byggðir landsins og allir sveitarstjórnarmenn, hvar í flokki sem þeir standa, hafa lýst yfir stuðningi við þetta verkefni.