143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og sjá má af þeim tillögum sem nú verða greidd atkvæði um er tekjugrunnurinn vegna skatttekna örlítið að styrkjast frá því að frumvarpið var lagt fram og eru það jákvæð merki. Skatttekjur á síðari hluta ársins hafa skilað sér betur en á horfðist lengi framan af. Þrátt fyrir skattalækkanir til einstaklinga hækka heildarskatttekjurnar milli ára og er það ekki síst vegna bankaskattsins, en hér er sérstakt gjald á fjármálafyrirtæki upp á rúma 15 milljarða. Rétt er þó að geta þess, sem reyndar hefur komið fram áður, að á milli 2. og 3. umr. er gert ráð fyrir að sá liður taki frekari breytingum.

Almennt er það mjög til umhugsunar að skatttekjur ríkisins á undanförnum árum hafa sem hlutfall af landsframleiðslu ekki vaxið í neinu samræmi við þær miklu hækkanir á sköttum sem átt hafa sér stað. Þess vegna er hér verið að leggja upp með nýja aðferðafræði.