143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér eru greidd atkvæði um álagningu veiðigjaldsins, svo lækkaðs, eftir meðferð ríkisstjórnarinnar á þeim lið á yfirstandandi ári. Vegna ummæla hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áðan er full ástæða til að minna á að minni hluti atvinnuveganefndar lagði í tillögum sínum á sumarþingi í sumar fram útfærðar hugmyndir um hvernig hægt væri að mæta eðlilegum athugasemdum um að gjaldið legðist of þungt á minni útgerðir.

Það liggur fyrir að sjávarútvegurinn gæti borið hærra veiðigjald en lagt er á nú. Það liggur fyrir eftir afkomutölurnar sem fram komu frá Hagstofunni í síðustu viku að greinin gæti borið hærra auðlindagjald og það væri eðlilegt og æskilegt að það væri lagt á. Við sjáum hins vegar núna afleiðingarnar af því að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að leggja eðlileg gjöld á greinina.