143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:14]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er kominn liður sem heitir Skólagjöld og er um innritunargjöld í opinbera háskóla sem rökstudd eru með því að það sé ósk háskólanna að fá meiri pening vegna kostnaðar við innritun. Þessi gjaldtaka upp á 15 þús. kr. á hvern námsmann er síðan látin renna meira og minna til ríkissjóðs en ekki til háskólanna. Þarna er enn einn skatturinn þar sem menn státa sig annars vegar af því að lækka skatta, hins vegar sækja þá í nefskatta sem er eitt ósanngjarnasta formið varðandi skattlagningu.

Það er líka spennandi að vita hvað átt er við með því að kalla þetta svo skólagjöld hér vegna þess að það vísar þá á eitthvað sem við styðjum ekki, þ.e. að fara að taka upp skólagjöld í opinberum háskólum.