143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er lagt til að ríkisvaldið fái fullnægjandi heimildir til að standa að samkomulagi við lífeyrissjóðina um að færa niður lánsveðslán þannig að sá hópur fái loksins seint og um síðir sambærilega meðferð að breyttu breytanda og þeir sem fengu úrlausn samkvæmt svonefndri 110%-leið. Ég tel í sjálfu sér að þó að styrkara væri að samþykkja um þetta sérstakt frumvarp þá verði þessar heimildir alveg fullnægjandi, þ.e. að fá fjárheimildir og sérstakt heimildarákvæði í heimildargrein.

Það er alveg ljóst að þessi hópur fær takmarkaða og sumir jafnvel enga úrlausn í þeim almennu aðgerðum sem boðaðar eru nú og ljóst að það þarf mun meira til en þeir sem lakast standa í þessum hópi, bullandi yfirveðsettir, eiga að fá, t.d. eitthvað sambærilega úrlausn og 110%-leiðin bauð upp á.

Hæstv. ríkisstjórn hefur nú haft um átta mánuði til að svara því hvort hún ætli að gera eitthvað fyrir þennan hóp. Ég er búinn að margfara hér upp og spyrja hæstv. fjármálaráðherra, ég ætlaði að spyrja forsætisráðherra en hann hefur aldrei verið við. Ég hef engin svör fengið. (Forseti hringir.) Það er því miður síðasta tækifærið nú fyrir jól til að gera eitthvað í málinu, (Forseti hringir.) og það er væntanlega í höndum þingmanna, þannig að (Forseti hringir.) lánsveðshópurinn verði ekki skilinn eftir.