143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mundi gjarnan vilja geta stutt uppbyggingu hjá Menntaskólanum í Reykjavík þar sem er svo sannarlega ekki vanþörf á því að hefja uppbyggingu. En ég verð að segja að mér finnst sérkennilegt að setja hér inn fjárveitingu án þess að fyrir liggi samkomulag við Reykjavíkurborg sem borgar um 40% af stofnkostnaði framhaldsskóla í Reykjavík og mér finnst sérkennilegt að hér séu lagðar til 97 millj. kr. í stofnkostnað án þess að búið sé að ákveða nákvæmlega hvaða framkvæmd eigi að ráðast í. Ég velti því fyrir mér hvort ekki væri hreinlega eðlilegra að þessi liður væri undir viðhaldskostnaði því það er líka öllum ljóst að þarna er mikil viðhaldsþörf. Ég sit því hjá í þessari atkvæðagreiðslu þó að í prinsippi sé ég mjög fylgjandi uppbyggingu. Þetta kann þó að skýrast eitthvað með vinnuna.