143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:39]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Að mínu mati birtist gríðarleg skammsýni af hálfu þessarar ríkisstjórnar í því hvernig er verið að skera niður atvinnu- og hagvaxtarskapandi verkefni hér trekk í trekk. Hér er verið að samþykkja að Kvikmyndasjóður fari inn í næsta ár skorinn niður um 40%. Þetta mun hafa gríðarleg áhrif á þessa mikilvægu atvinnugrein okkar. Það er jafnvel talað um hátt í 200 störf þegar þetta er lagt saman við niðurskurðinn sem samþykktur hefur verið á Ríkisútvarpinu, sem ber að kaupa innlent efni fyrir um það bil 10% af fjármunum sínum.

Það er að mínu mati mikið óráð að fara þessa leið, eina ferðina enn, alveg eins og ég tel það óráð að ráðast á Tækniþróunarsjóð og Rannsóknasjóð. Kvikmyndasjóður er jafn mikilvægur og hinar skapandi greinar og nýsköpunargeirinn.