143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þessi harkalegi niðurskurður á skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna dúkkaði hér upp í breytingartillögu meiri hlutans óforvarandis þegar ríkisstjórnin hraktist undan með að skerða barnabætur og greip í staðinn til niðurskurðaraðgerða á ráðuneytum og nokkrum stofnunum sem undir ráðuneytin heyra sem virðast hafa verið valdar af handahófi. Hér keyrir alveg um þverbak því að það á nánast að rústa starfsemi skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna.

Ég hef engin sannfærandi rök heyrt færð fyrir því að þetta sé hagkvæm ráðstöfun. Ég veit ekki betur en að þetta fyrirkomulag hafi verið af þeim sem til þekkja og njóta þjónustu skrifstofunnar talið mjög hagkvæmt, að á einum stað væri haldið sameiginlega utan um bókhald og miðlæga starfsemi þessarar starfsemi. Ég þykist þekkja eitthvað til þess og ég bið um rök áður en menn kokgleypa hráar einhverjar geðvonskutillögur meiri hluta fjárlaganefndar af þessu tagi.

Hvar eru rökin fyrir því að það sé sérstaklega hagfellt að rústa þessari skrifstofu sem hefur sinnt (Forseti hringir.) starfsemi sinni vel með hagkvæmum hætti að mati allra þeirra (Forseti hringir.) sem fela henni að sjá um þjónustuna fyrir sig? [Kliður í þingsal.]