143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Á Íslandi er vinsælt að kalla hvað sem er mannréttindi en það eru nokkur mannréttindi sem eru raunveruleg mannréttindi samkvæmt stjórnarskrá og samkvæmt mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar á meðal er friðhelgi einkalífsins sem ég talaði um í ræðu minni 19. nóvember sl. og nefndi það að Persónuvernd sem stofnun hefur ekki burði til að standa við eftirlitshlutverk sitt.

Það gleður mig mjög mikið að hér sé komið til móts við þær áhyggjur og þótt upphæðin sé ekki há, 28 milljónir, er hún hlutfallslega mjög há. Því þakka ég ríkisstjórn fyrir að hlusta á það en harma þó að sumu leyti að til þess hafi þurft svo stórt atvik sem Vodafone-hneykslið, sem er nýgengið yfir. Ég vona að þessi málaflokkur fái enn meiri athygli í framtíðinni.