143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni styðjum að bætt sé í við heilbrigðiskerfið en teljum að lengra hefði þurft að ganga.

Ég vil hins vegar gera það að umtalsefni hér, vegna þess að við erum að fara að byrja að greiða atkvæði um heilbrigðisþátt þessara tillagna, að mér berst núna til eyrna að hugmyndir séu uppi um það meðal ríkisstjórnarflokkanna að láta sjúkrahúsin bera þann kostnað sem til fellur því að þeir samþykktu í gærkvöldi að falla frá áformum um sjúklingaskatta. Það datt aldrei nokkrum manni í hug á formannafundum þegar rætt var að draga til baka sjúklingaskatta að ríkisstjórnin kæmi þá til baka og heimtaði viðbótarniðurskurð á Landspítalanum eða viðbótarniðurskurð á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Ég vil því biðja ríkisstjórnina um að fara nú að vakna í þessum málaflokki og forgangsraða rétt. Hugmyndin sem við gengum út frá í samningum hér í gær var sú að þessum gjöldum yrði létt af sjúklingum og ríkissjóður mundi bæta spítölunum það. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)